Eyrún and Íris, the founders of Snerpa Power, were interviewed by the business paper, Viðskiptamogginn. We had an interesting talk about the Snerpa Power software platform and it´s impact. Interview below, in Icelandic.
Þóroddur Bjarnason hjá ViðskiptaMogganum ræddi á dögunum við okkur um lausn Snerpa Power. Þetta var skemmtilegt spjall sem við birtum hér í heild sinni:
Sparað á við eina virkjun
Fyrirtækið Snerpa Power hyggst með nýrri lausn sinni auka samkeppnishæfni íslensks raforkumarkaðar og íslensks iðnaðar.
Íris Baldursdóttir framkvæmdastjóri og annar stofnandi félagsins segir í samtali við ViðskiptaMoggann að iðnfyrirtæki á Íslandi hafi þegar tekið mikið frumkvæði í átt að sjálfbærni í sínum rekstri og vilji leggja sitt að mörkum til að fara sem best með þær auðlindir sem þau nýta í sinni framleiðslu. „Við viljum bjóða þeim enn eitt tækifærið til að stuðla að bættri nýtingu á raforkuauðlindum Íslands, þeim, og raunar öllu samfélaginu, til hagsbóta. Það er líka mikilvægt að framtíðar iðnfyrirtæki sem sækja hingað komi inn í umhverfi sem er samkeppnishæft í samanburði við alþjóðlega markaði. Snerpa Power er eitt púslið í þeirri framtíðarsýn, “ segir Íris.
Ísland stendur vel
Hún segir að Ísland standi vel með sína endurnýjanlegu orku en aðrar þjóðir stefni hraðbyri í sömu átt til að mæta metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum. „Það er mikilvægt að finna sífellt nýjar leiðir til að hámarka nýtingu orkuauðlinda, ekki síst nú þegar við stöndum frammi fyrir gríðarlegum áskorunum tengdum orkuskiptum. Þar kemur Snerpa Power inn með mikilvægan innviði fyrir raforkumarkaðinn á Íslandi sem síðar má heimfæra á erlenda markaði. “
Fyrirtækið hefur nú þegar fengið ýmsa styrki til verkefnisins, m.a. frá Tækniþróunarsjóð og nú síðast Orkusjóð. Þá fékk Snerpa Power á dögunum undirritaða stuðningsyfirlýsingu frá bæði Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, enda fellur verkefnið að sögn Írisar vel að orkustefnu stjórnvalda og stefnu og aðgerðaráætlun um orkuskiptin.
Hugmyndin blunað lengi
Spurð um hvenær hugmyndin hafi kviknað segir Íris að lengi hafi blundað í sér að virkja raforkunotendur til meiri þátttöku á markaði. „Ég veit hvað svona lausn getur gert mikið fyrir notandann, sem fær tækifæri til að selja brot af sínu rafmagni til baka upp á net á samkeppnishæfu verði þegar reksturinn býður upp á það. Hann fær því tekjur af sölunni og lækkar heildar raforkukostnað sinn. Þetta eykur líka hagræði í raforkukerfinu öllu og dregur úr álagstoppum. Lausnin gerir kerfið skilvirkara og er hagræðing fyrir alla. Við Eyrún ræddum svo saman en hún hefur mikla reynslu af notendahliðinni og mjög fljótlega varð ljóst að við deildum þessari sýn og ákváðum að gera hana að veruleika og þá þannig að allir stórnotendur nytu góðs af. “
Rímar við stefnu stórnotenda
Eyrún Linnet, stjórnarformaður og meðstofnandi Snerpa Power, segir að lausnin rími vel við stefnu stórnotenda rafmagns á Íslandi sem hafa sjálfbærnimarkmið að leiðarljósi. Hinsvegar hafi vantað lausn til að gera tiltölulega flókið ferli sjálfvirkt og aðgengilegt.
Íris lýsir lausninni sem brú milli markaðarins og stórnotandans. „Hún tengir saman gagnastrauma og sjálfvirknivæðir ferla sem eru að miklu leiti handvirkir hjá stórnotendum í dag. Lausn okkar sjálfvirknivæðir og bestar alla álagsáætlana- og tilboðsgerð þeirra, lágmarkar frávik í raforkupöntunum og gefur fulla yfirsýn yfir raforkunotkun sem og tekjur og kostnað tengdum raforkukaupum og -sölu. “
Til frekari útskýringar segir hún að lausnin muni m.a. tengjast markaði Landsnets með kerfisþjónustu. „Landsnet þarf að kaupa ákveðnar raforkuafurðir til að tryggja jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar raforku í rauntíma. Það þarf alltaf að vera jafn mikið rafmagn framleitt inn á kerfið og tekið er út af því. “
Rafmagn er ferskvara
Allt gerist þetta á örskotshraða eins og Íris útskýrir. „Raforka er ferskvara sem rennur út á nokkrum sekúndum. Hún er ekki eins og mjólkin í ísskápnum, með viku endingartíma.“
Hún segir til enn frekari útskýringar að frávik í kerfinu verði í rauntíma. „Þegar þú hleður bílinn þinn verður til frávik í rauntíma sem þarf að jafna samstundis. Einhver þarf þá að framleiða örlítið meira rafmagn eða draga úr sinni raforkunotkun. Stundum eru frávikin uppsöfnuð eða stór og ófyrirséð, t.d. vegna truflana hjá framleiðanda eða notanda rafmagns. Við viljum virkja íslensku stórnotendurna, eins og álver og gagnaver, til að vera þátttakendur í að jafna frávik í rauntíma í stað þess að taka frá umtalsvert afl í virkjunum landsins í sama tilgangi. “
Í deiglunni í Evrópu
Íris segir að þessi mál séu mikið í deiglunni í Evrópu þessi misserin. Víða er hvatt til lausna í ætt við þá sem Snerpa Power vinnur að en líkt og hér eru verkefnin á þróunar- og tilraunastigi. "Lausn Snerpa Power sker sig úr með því að einblína á veruleika stórnotenda raforku og þarfir þeirra til að bæta álagsstýringu út frá raforkukostnaði og leysa nýjar orkulausnir úr læðingi fyrir raforkukerfið. Í upphafi hugsum við þetta alfarið fyrir íslenskan markað. Aðstæður hér eru að einhverju leiti ólíkar öðrum löndum. Hver markaður er frábrugðinn þeim næsta. Takist vel til að þróa lausn okkar hér heima má vel aðlaga hana að erlendum mörkuðum .“
Hún segir að það sem aðgreini íslenska markaðinn sé m.a. tímalengdin á vörunum og kröfur um viðbragðstíma. Hér sé svokallaður klukkutíma markaður, en erlendis sé jafnvel um hálftíma eða korters markað að ræða. „Stærð tilboða er mismikil eftir löndum og markaðstorgin eru sniðin að hverju landi fyrir sig en í Evrópu er markið nú sett á að sameina markaði og samræma vörurnar á næstu árum. Þá verði forsendur um aðlögun á okkar lausn aðrar og jafnvel enn áhugaverðari. “
Hluti hringráðsarhagkerfisins
Eins og glöggt má sjá af máli Írisar og Eyrúnar er lausn Snerpa Power hluti af hringrásarhagkerfinu þar sem aukin sjálfbærni er í forgrunni. „Við tókum til dæmis þátt í viðskiptahraðlinum Hringiðu í vor. Verkefnið smellpassaði þar inn þar sem hún eykur nýtingu auðlinda og skapar þar með svigrúm fyrir orkuskiptin. Það er gríðarleg og vaxandi þörf fyrir raforku vegna orkuskiptanna, færslunni úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Það þarf vissulega að virkja meira en lausnir eins og okkar sem stuðla að bættri orkunýtingu núverandi auðlinda þurfa einnig að vera hluti af raforkukerfi framtíðarinnar. “ segir Eyrún.
Losa um tugi megavatta
Spurð um hversu mikið væri hægt að spara af raforku með nýju lausninni segir Íris að frátekið afl í virkjunum á Íslandi vegna kerfisþjónustu til að mæta skammtímafrávikum sé um 140 MW. „Búrfellsstöð II er til samanburðar 100 MW. Stærðargráðan er sem sagt á við eina miðlungsstóra vatnsaflsvirkjun. Það munar verulega um að losa um tugi megavatta í vinnslukerfinu og myndi það afl nýtast vel í orkuskiptaverkefni af ýmsum toga, m.a. í rafbílavæðinguna og framleiðslu rafeldsneytis til þungaflutninga .“
Eyrún bendir á að það taki 5 – 15 ár að byggja nýja virkjun með tilheyrandi tilkostnaði og umhverfisáhrifum en með lausn Snerpa Power verði hægt að fá ígildi á uppsettu afli einnar virkjunar inn á kerfið á mun skemmri tíma eða einu til þremur árum. „Okkar útreikningar sýna að stórnotendur eins og álver og gagnaver, geta með lausninni sparað nokkur prósent af útgjöldum sínum til raforkukaupa og það samræmist líka ágætlega erlendum greiningum. Miðað við það hvað raforka er stór hluti útgjalda þessara fyrirtækja er um umtalsverðar upphæðir að ræða ,“ segir Eyrún. „Þetta er ótrúlega spennandi og jákvætt fyrir raforkukerfi landsins. Það er mikilvægt að raforkumarkaðsumhverfið og regluverkið allt hvetji til þátttöku stórnotenda og umbuni fyrir með sanngjörnum hætti .“
Fyrsta útgáfa kemur 2023
Spurð um stöðu verkefnisins í dag segir Íris að verkefnið sé á þróunarstigi og fyrsta útgáfan sé væntanleg á næsta ári. „Við erum í tilraunaverkefni með Landsneti við að tengja saman gagnastrauma. Svo erum við einnig í samstarfi við ÍSAL í Straumsvík. Þá munum við kynna verkefnið fyrir fleiri stórnotendum í ágúst og september. Við vonumst eftir að vekja áhuga fleiri aðila með margþættum ávinningi. Að þau horfi á lausnina sem leið til að lækka sinn raforkukostnað og stuðla með beinum hætti að sjálfbæru raforkukerfi og bættri orkunýtingu “
Hvað þörf á frekari fjármögnun verkefnisins varðar segja þær Íris og Eyrún að félagið eigi nægt fé til að ljúka grunn prófunum og klára fyrstu útgáfu hugbúnaðarins en horft verði til frekari fjármögnunar í vetur.